#UNGAUST2017

Ályktanir ráðstefnu 8.-9. apríl 2017 á Borgarfirði eystra.

 

Ungt Austurland krefst þess að geðheilbrigðisþjónusta á Austurlandi verði bætt.
Staðreyndin er sú að sálfræðiþjónustu er ábótavant á landsbyggðinni. Sálfræðiþjónusta ætti að vera hluti af heilsugæslu og verða þannig aðgengileg fyrir Austfirðinga.

Ungt Austurland hvetur stjórnvöld til þess að beita skattkerfinu til að hvetja fólk til búsetu á landsbyggðinni.
Ráðstefnan skorar á stjórnvöld að fylgja eftir hugmyndum um að beita skattkerfinu til að hvetja fólk til búsetu á landsbyggðinni en fyrri því eru fordæmi í nágrannalöndum okkar. Það á ekki að vera markmið að ungt fólk flytji aldrei af svæðinu. Markmiðið á að vera að búa til skilyrði til þess að fólk vilji koma aftur og taka fleiri með sér.

Ungt Austurland vill að á Austurlandi séu í boði fjölbreyttir menntunarmöguleikar.
Byggja má upp menntastofnanir, til dæmis efla lýðháskóla, sem byggja á sérstöðu svæðisins.
Ungt Austurland hvetur sveitarfélögin til að vinna saman í að skapa fjórðungnum sérstöðu í framúrskarandi þjónustu við börn og ungmenni.

Ungt Austurland hvetur Austfirðinga til að vera duglega að sækja þjónustu á milli byggðarlaga.
Mið-Austurland er orðið að einu atvinnu- og þjónustusvæði. Til að efla það enn frekar, og tengja jaðarsvæðin betur, þurfa samgöngur í fjórðungnum að uppfylla nútíma skilyrði. Ungt Austurland hvetur íbúa Austurlands til þess að breyta viðhorfi sínu til þess að sækja þjónustu milli byggðarlaga. Með því má byggja upp öflugri þjónustu, fjórðungnum til hagsbóta.

Ungt Austurland kallar eftir því að næstu jarðgöng verði til Seyðisfjarðar.
Byggðaráðstefna Ungs Austurlands telur það skýlausa kröfu að næstu jarðgöng á eftir Dýrafjarðargöngum verði til Seyðisfjarðar. Ráðstefnan skorar á stjórnvöld að setja sér stefnu í jarðgangamálum þar sem greindir verði kostir í jarðgöngum á landinu og þeim forgangsraðað. Ljúka verður við að malbika mikilvægustu samgönguæðar fjórðungsins sem fyrst. Það á ekki að vera pólitískt deilumál heldur afgreiðslumál. Hringvegurinn hefur verið færður niður á firði að öllu leyti nema vegnúmerinu. Það á eftir að staðfesta.

Ungt Austurland vill að bíllaus lífstíll verði raunhæfur valkostur á Austurlandi.
Bíllaus lífsstíll er ekki valkostur á Austurlandi í dag. Almenningssamgöngur hafa tekið framförum með Strætisvögnum Austurlands en halda verður áfram að þróa kerfið, klára að tengja alla staði innan fjórðungsins og einfalda það. Öflugri almenningssamgöngur yrðu stórt skref í að þétta austfirskt samfélag. Þær ættu einnig að nýtast ferðamönnum til að ferðast um svæðið. Aukin notkun myndi bæta kerfið.

Ungt Austurland leggst gegn lokun Reykjavíkurflugvallar á meðan aðrir valkostir eru ekki í boði.
Fáir treysta jafn mikið á flugsamgöngur og Austfirðingar. Þær eru nauðsynlegar bæði fyrir lífsnauðsynlega þjónustu eins og heilbrigðisþjónustu og til að nálgast Þjóðleikhúsið. Byggðaráðstefnan leggst alfarið gegn hugmyndum um lokun Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri á meðan ekki eru aðrir raunhæfir valkostir í boði. Flutningur hans við núverandi aðstæður myndu lengja ferðatíma og ógna sjúkraflugi. Gera verður innanlandsflug að raunhæfum samgönguvalkosti fyrir almenning. Það gerist eingöngu með niðurgreiðslu ríkisins.

Ungt Austurland skorar á ISAVIA að gera alvöru áætlun fyrir millilandaflug um Egilsstaðaflugvöll.
Alþjóðaflugvöllurinn á Egilsstöðum er vannýtt auðlind. Ráðstefnan skorar á ISAVIA að gera alvöru áætlanir um að tryggja reglulegt millilandaflug um völlinn. Það myndi ekki aðeins nýtast til ferðaþjónustu heldur bæta verulega lífsgæði íbúa auk þess að opna ný tækifæri fyrir útflutningsgreinar, svo sem sjávarútveginn.

Ungt Austurland hvetur til stofnunar leigufélaga án hagnaðarsjónarmiða.
Húsnæðisvandinn á Austurlandi er annars eðlis en á höfuðborgarsvæðinu, algengt er að ungt fólk sé hrætt við að fjárfesta í húsnæði því það óttast að sitja upp með fasteign og geta ekki selt aftur. Aðgengi að leiguhúsnæði er forsenda þess að margt ungt fólk láti á það reyna að flytjast austur til reynslu.

Ungt Austurland kallar eftir eftirliti með íbúðarhúsnæði í útleigu til ferðamanna.
Útleiga íbúðarhúsnæðis til ferðamanna, til að mynda í gegnum AirBnB skapar vandamál á leigumarkaði og þurkar jafnvel sumstaðar upp allt laust íbúðarhúsnæði yfir sumartímann. Nauðsynlegt er að sveitarfélög móti stefnu varðandi slíka starfsemi og haldi uppi eftirliti með því að henni sé framfylgt.

Ungt Austurland vill að stuðlað sé að nýsköpun í fullvinnslu matvæla sem framleidd eru í fjórðungnum.
Skynsamleg og sjálfbær auðlindanýting er mikilvægur grunnur að fjölbreyttu og blómlegu atvinnulífi og búsetu um landið, en búseta um allt land er jafnframt forsenda skynsamlegrar og sjálfbærrar nýtingar þessara auðlinda. Austurland er gott svæði til matvælaframleiðslu og nauðsynlegt er að stjórnvöld styðji íbúa Austurlands við að nýta þá möguleika sem er að finna á svæðinu. Leitast þarf við að tryggja fjölbreytni því með fjölbreyttu atvinnulífi eru samfélögin sterkari og betur í stakk búin til að takast á við áföll. Því þarf að tryggja virkan stuðning við frumkvöðla í hinum ýmsu greinum og ekki síst þeim sem tengjast frumatvinnuvegunum með beinum hætti. Auðvelda þarf nýliðun í landbúnaði og hvetja til og stuðla að nýsköpun í úrvinnslu og fullvinnslu matvæla sem framleidd eru í heimabyggð. Fiskvinnslufyrirtæki á Austurlandi ættu að hefja samtal sín á milli og koma á klasasamstarfi um vöruþróun. Auk þess eru bændur á Austurlandi hvattir til aukinnar félagslegrar samstöðu um fullvinnslu matvæla í fjórðungnum.

Ungt Austurland vill ekki að ríkið sitji á eignum sem nýst geta til atvinnustarfsemi.
Ríkisvaldið þarf að setja sér skýra stefnu um að sitja ekki á eignum sem nýst geta til atvinnustarfsemi. Hvort sem er ríkisjarðir eða atvinnuhúsnæði. Þannig verði það skylda ríkisvaldsins að koma starfsemi í atvinnuhúsnæði í eigu Byggðastofnunar sem og að auglýsa til ábúðar allar ábúðarhæfar ríkisjarðir með það að markmiði að auðvelda nýliðum að koma undir sig fótunum.

Ungt Austurland tekur jákvætt í hugmyndir um aukið fiskeldi á Austfjörðum og vill að sveitarfélög hafi skipulagsvald á hafsvæðum innan fjarða og víkna.
Nýta ætti þau tækifæri sem til staðar eru til að auka fjölbreytni atvinnulífs með auknu fiskeldi á Austurlandi, en þó þannig að uppbygging verði sjálfbær og stöðug og feli í sér lágmarks áhættu fyrir náttúru landsins og villta fiskistofna. Regluverk fyrir greinina þarf að uppfæra þannig að það samræmist gildandi reglum í nágrannalöndunum. Sveitarfélög eiga að fá skipulagsvald innan víkna og fjarða. Þannig verður það í höndum staðbundinna stjórnvalda í hversu miklum mæli verði byggð upp atvinnustarfsemi á hafi á borð við fiskeldi.

Ungt Austurland hvetur fyrirtæki í fjórðungnum til að setja sér jafnréttisstefnu og fylgja henni.
Fyrirtæki á Austurlandi ættu að móta sér markvissa jafnréttisstefnu til að laða að fjölbreytta og mismunandi hópa til að starfa.

Ungt Austurland vill að stutt sé við frumkvöðlastarf með myndarlegum hætti á Austurlandi.
Nýsköpun og frumkvöðlastarf endurspeglar samfélagið. Með því að skapa sín eigin störf, tekur fólk virkann þátt í að breyta og bæta samfélagið og einstaklingar fá rými til að vera þeir sjálfir og starfa á eigin forsendum. Þar sem nýsköpun þrífst finnur fólk að það skiptir máli, að hugsun einstaklingsins sé mikilsverð og geti orðið að einhverju verðmætu og sérstöku. Þess vegna þarf á Austurlandi að vera nærandi jarðvegur fyrir nýsköpun. Frumkvöðlum ætti í meira mæli að standa til boða styrkir við upphaf verkefna og þolinmótt lánsfé, smáir styrkir til skemmri tíma koma í veg fyrir að gerðar séu langtímaáætlanir í nýsköpun. Umsýslu stuðnings, styrkja og lánveitinga til frumkvöðla er vel komið í höndum landshlutabundinna stofnana. Sveitarfélögin ættu líka að styðja sprotafyrirtæki til að mynda með því að skaffa aðstöðu til afmarkaðs tíma á meðan fyrirtæki eru að byggja sig upp.

Ungt Austurland ítrekar mikilvægi uppbyggingar innviða.
Tryggja verður að helstu innviðir, bæði innan og utan þéttbýlis, uppfylli kröfur 21. aldarinnar meðal annars aðgengi að rafmagni, há-hraða interneti og farsímasambandi.

Ályktanir

Fylgdu okkur

Ungt Austurland | kt. 460117-0380 | This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.