Miðstjórnarfundur 2017
Ályktanir miðstjórnarfundar 2017
Samgöngumál
Jarðgöng stytta leiðir og auka öryggi. Frekari jarðgangagerð á Austurlandi er forsenda áframhaldandi vaxtar Austurlands. Ungt Austurland hvetur til þess að næstu jarðgöng á Austurlandi verði til Seyðisfjarðar sem hluti af tengingu mið-Austurlands með samgöngum. Eins þarf að efla leiðir úr jaðarbyggðum inn á miðsvæðið.
Bíllaus lífsstíll á að vera kostur fyrir Austfirðinga. Til að svo megi verða verður að halda áfram að byggja upp rútuferðir á milli þéttbýliskjarna. Einfalda þarf kerfið, opna ferðir enn frekar og tryggja að ferðir falli að þörfum þeirra sem vilja nýta sér þær.
Ungt Austurland fagnar umræðu um skosku leiðina í flugsamgöngum og aukna umræðu um að innanlandsflug verði skilgreint sem almenningssamgöngur. Innanlandsflugið skiptir lykilmáli til að Austfirðingar geti sótt sér margvíslega þjónustu og afþreyingu, sem meðal annars er haldið úti af ríkinu, sem eingöngu er að finna á höfuðborgarsvæðinu.
Millilandaflug um Egilsstaðaflugvöll myndi efla lífskjör á Austurlandi. Ungt Austurland hvetur þar til bæra aðila til að beita sér af alefli til að svo megi verða, til dæmis með markaðssetningu svæðisins. Nauðsynlegt er að flutningskostnaður á flugvélaeldsneyti verði jafnaður þannig verðið verði hið sama um allt land.
Ung Austurland fagnar framtaki Flugfélags Íslands með flugi milli Akureyrar og Keflavíkur í tengslum við millilandaflug og vonar til að það verði sem fyrst í boði milli Egilsstaða og Keflavíkur.
Geðheilbrigði
Ungt Austurland minnir á mikilvægi þess að opna umræðuna um geðheilbrigði á fjölbreyttum vettvangi innan samfélagsins. Félagslegur stuðningur í nánasta umhverfi skiptir miklu, auk aðgengis að sálfræðingum og geðlæknum.
Ungt Austurland minnir á ekki eiga allir jafn greiðan aðgang að aðstoð og hvetur til þess að geðheilbrigðisþjónusta sé stórlega bætt af hálfu HSA – með auknu aðgengi að sérfræðingum og niðurgreiðslu þjónustunnar. Ungt Austurland hvetur jafnframt HSA til þess að standa reglulega fyrir faglegri fræðslu um geðheilbrigðismál á almennum vettvangi, þannig að auðvelt sé að leita sér upplýsinga og/eða aðstoðar hjá fagaðilum.
Ungt Austurland hvetur opinberar stofnanir og fyrirtæki til þess að bjóða upp á fræðslu um geðheilbrigðismál fyrir starfsfólk sitt. Ungt Austurland hvetur sérstaklega starfsfólk grunn- og menntaskóla til þess að vekja upp umræðu um geðheilbrigði meðal nemenda sinna og bjóða upp á faglega fræðslu og umræðu um málefnið, með leiðsögn fagaðila.
Tækninýjungar og sigtun
Ungt Austurland hvetur HSA til þess að bæta þjónustu sína, m.a. með tækninýjungum er snúa að fjarheilbrigðisþjónustu og nýjum verkferlum á borð við sigtun sjúklinga. Ungt Austurland leggur áherslu á að nýjungar og breytingar á núverandi þjónustu skulu ekki vera á kostnað sjúklinga – nýjungar og breytingar skulu vera til þess gerðar þannig að um betri þjónustu sé að ræða, að biðtímar styttist og betur náist að þjónusta jaðarbyggðir. Mikilvægt sé að standa vel að öllum breytingum og tækniþróun.
Sveitastjórnarkosningar
Ungt Austurland hvetur ungt fólk á Austurlandi til að sýna krafta sína í verki og axla þá ábyrgð að bjóða sig fram til starfa á vettvangi sveitarstjórna hvort sem er í nefndum sveitarfélaga eða bjóða sig fram til setu í bæjar- og sveitarstjórnum. Það er enginn að fara að bjarga þessum samfélögum ef við gerum það ekki.
Ungt Austurland mun leitast við að vera öflugt bakland fyrir unga frambjóðendur. Ef ungt fók telur sig ekki eiga þess kost að koma sínum sjónarmiðum á framfæri innan gömlu framboðanna, eða að ungt fólk hljóti ekki brautargengi á framboðslistum þeirra, hvetur Ungt Austurland alla unga Austfirðinga til að vera óhræddir við að stofna eigin framboð til að berjast fyrir því að raddir þeirra heyrist og áhrif þeirra verði mikil á stefnu sveitarfélaga á næstu árum.
Samstarf á Austurlandi
Ungt Austurland leggur áherslu á íbúar Austurlands líti á sig sem eina heild og vinni saman. Ákvarðanir sem snúa að veitingu þjónustu og uppbyggingu samgangna í fjórðungnum á að taka með það að leiðarljósi að skapa á Austurlandi samfélag sem er samstæð og órofa heild.
Ungt Austurland telur að stefna eigi að því að Austurland verði eitt sveitarfélag og telur rétt að hefja þegar aðgerðir til að vinna að því markmiði. Samtökin telja þó mikilvægt að jafnhliða því verði gerðar breytingar á sveitarstjórnarstiginu sem tryggja að íbúar hafi eftir sem áður mikil áhrif á ákvarðanir sem varða þeirra byggðarlag og nærsamfélagið sem þau búa í.